„Mikilvægt að ráða eigin örlögum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Efnahagserfiðleikarnir á Íslandi og í Evrópusambandinu hafa sýnt okkur hversu mikilvægt það er að ráða eigin örlögum.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal þar sem fjallað er um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Hann bendir einnig á að það hafi ekki gagnast Kýpverjum mikið að hafa evruna sem gjaldmiðil.

Fram kemur í fréttinni að margir andstæðingar inngöngu Íslands í Evrópusambandið bendi á það hvernig komið hafi verið fram við Kýpur til marks um það að lítil vörn væri í því fyrir Íslendinga að vera þar innanborðs ef til annarrar efnahagskrísu kæmi. Líklegt sé talið að ný ríkisstjórn Íslands eigi eftir að hægja á eða alfarið stöðva vegferðina inn í sambandið sem hafi hafist með umsókninni um inngöngu í það árið 2009.

„Það virðist sem hafið sé tímabil hnignunar í Evrópusambandinu,“ segir Sigmundur ennfremur og bætir við að byggja þurfi upp tengsl við ríki í Asíu og víðar þar sem vöxturinn sé aðallega. Vísað er í því sambandi í fréttinni til þess að Ísland hafi nýverið skrifað undir fríverslunarsamning við Kína. Þá sé mikill meirihluti kjósenda andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnunum.

Einnig er rætt við Katrínu Júlíusdóttur, fjármálaráðherra, sem segir að evran sé heitasta viðfangsefnið í pólitískri umræðu á Íslandi en hafi engu að síður ekki verið rætt nógu mikið í kosningabaráttunni. Hún segir mikilvægt að Íslendingar geti notið þess efnahagslega ávinnings að eiga sæti við borðið hjá Evrópusambandinu.

Frétt Wall Street Journal

Katrín Júlíusdóttur, fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttur, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert