Ólíkar hugmyndir um samstarfsfélaga

Ef menn ná ekki saman um málefni þá er hugsanlega rétt að mynda stærri stjórn en tveggja flokka sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í leiðtogaumræðunum sem standa nú yfir á RÚV. Hann sagðist þó telja æskilegast að mynda sterka tveggja flokka stjórn ef þess væri kostur. Sjálfstæðisflokkurinn stæði hins vegar ekki í neinum slíkum viðræðum þó öðru hefði verið haldið fram.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði mestu skipta að ný ríkisstjórn nýtti einstakt tækifæri sem væri til staðar til þess að aðstoða heimilin í landinu. Spurður hvort hann vildi frekar mynda stjórn til vinstri eða hægri sagði hann að svarið við því væri einfalt. Ef menn vildu að stefna flokksins næði fram að ganga ættu þeir að kjósa Framsóknarflokkinn.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á mikilvægi þess að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið næði fram að ganga á næsta kjörtímabili. Hann sagði ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætluðu að stöðva það mál og ekki boða til neinnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Spurður hvort hann myndi láta steyta á því máli sagði hann það vera grundvallarmál.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lagði áherslu meðal annars á umhverfismál. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, tók undir með Katrínu varðandi umhverfismálin og með Árna varðandi Evrópusambandsumsóknina. Þá skipti til að mynda Landspítalinn miklu máli.

Þorvaldur Gylfason, vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar, sagðist reiðubúinn að vinna með þeim sem vildu láta þjóðarviljann ráða sem hefði komið fram í þjóðaratkvæðinu um stjórnarskrármálið síðastliðið haust. Bjarni Harðarson, hjá Regnboganum, sagði sitt framboð snúast aðallega um Evrópumálin.

Smári McCarthy frá Pírötum sagði ekki hafa verið rætt um það í sínum flokki sérstaklega hvort hann vildi í ríkisstjórn. Þeir væru aðallega að hugsa um að bæta vinnubrögð á Alþingi. Andrea Ólafsdóttir frá Dögun sagðist helst vilja vinna með nýju flokkunum og að Framsóknarflokkurinn gengi í gegnum hreinsunareld og ynni með nýju framboðunum.

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, sagðist helst vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Pétur Gunnlaugsson, frá Flokki heimilanna, sagðist helst vilja að forseti Íslands myndaði utanþingsstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert