Kjör lífeyrisþega verða bætt á næsta kjörtímabili verði Samfylkingin í aðstöðu til þess. Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í leiðtogaumræðum sem nú fara fram á RÚV. Rifjað var upp að kjör lífeyrisþega hefðu verið skertar af núverandi ríkisstjórn í kjölfar hrunsins og sagði Árni að alltaf hafi staðið til að bæta þær skerðingar. Það hefði að hluta til verið gert á kjörtímabilinu með vísitölutengingu. Almennt tóku allir frambjóðendurnir undir það að bæta þyrfti lífeyrisþegum þær skerðingar sem þeir hefðu orðið fyrir í kjölfar hrunsins.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - grænt framboðs, tók undir með Árna Páli og sagði að það væri forgangsmál að bæta kjör lífeyrisþega á næsta kjörtímabili. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í stjórnartíð flokksins hefði biðlistum eftir hjúkrunarrýmum verið eytt. Nú væru þessir biðlistar komnir aftur í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar. Hann sagði nýjasta klúður ríkisstjórnarflokkanna vera greiðslufyrirkomulag vegna lyfjakostnaðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Fransóknarflokksins, sagði nauðsynlegt að bæta lífeyrisþegum skerðingarnar.
Bjarni Harðarson, oddviti Regnbogans í Suðurkjördæmi, sagði að lykilatriði við að bæta kjör lífeyrisþega væri að hækka lágmarkslaunin. Hann sagði ástæðuna fyrir því að illa hefði farið í þeim efnum væri vegna frjálshyggjunnar. Gagnrýndi hann harðlega að frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar að almannatryggingakerfinu hefði aðeins komið fram á síðustu metrunum fyrir kosningar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagðist sérstaklega hafa áhyggjur af skerðingum á grunnlífeyri. Það væri til þess fallið að grafa undan vilja fólks til þess að greiða í lífeyrissjóði. Það væri ekki bara málið að leiðrétta eitthvað heldur finna framtíðarlausn á vandanum. Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, sagði sinn flokk vilja taka til baka tekjuskerðingar aldraðra afturvirkt.
Andrea Ólafsdóttir, frá Dögun, sagði að lífeyriskerfinu yrði breytt í gegnumstreymiskerfi og tryggja yrði lágmarksframfærsluviðmið. Þeir sem vildu leggja meira fyrir gætu gert það annars staðar. Smári McCarty frá Pírötum sagði að einfalda þyrfti framfærslukerfi og sameina þau og tryggja að enginn félli á milli. Tryggja þyrfti að fólk á miðjum aldri sem fengi ekki vinnu gæti stofnað fyrirtæki enda væri nýsköpun ekki bara fyrir ungt fólk.