Sigfús Sigfússon hefur verið dyravörður á kjörstað á Norðfirði í 40 ár samfleytt. Það var mál manna sem komu að kjósa á kjörfundi í morgun og Sigfús vísaði inn í kjörklefann að hann væri búinn að gegna þessu starfi svo lengi sem elstu menn muna og væri orðinn ómissandi kennileiti fyrir kjósendur.
Kjörfundur hófst í Barnaskólanum á Norðfirði klukkan 9:00 í morgun og allt stefnir í að kjörsókn verði með ágætum, enda kosningaveðrið með eindæmum gott, glaðasólskin og vart bærist hár á höfði.
Þá höfðu 163 utankjörfundaratkvæði borist kjörstjórninni á Norðfirði í morgun.
Að sögn Níelsar Hjálmarssonar lögreglumanns á Norðfirði kusu 150 utan kjörfundar hjá honum fyrir þessar kosningar sem er mun meira en fyrir þær síðustu, sem voru forsetakosningar, en þá kusu 100 manns utan kjörfundar hjá honum.