„Sama og gerðist víða í Evrópu“

„Ég held að fólk geri sér betur grein fyrir því núna en árið 2009 að það sem gerðist hér á Íslandi var það sama og við höfum séð um alla Evrópu. Við sjáum hvernig staðan er á Kýpur, við sjáum stöðuna í Suður-Evrópu og í mörgum fleiri Evrópuríkjum þar sem áhrif efnahagskrísunar hafa verið mjög alvarleg.“

Þetta segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við AFP-fréttaveituna vegna þingkosninganna sem fram fara í dag. Fram kemur í fréttinni að líklegt sé talið að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni mynda ríkisstjórn að loknum kosningunum í stað núverandi ríkisstjórnar vinstriflokkanna. Flokkarnir telji sig hafa lært af reynslu áranna fyrir bankahrunið.

„Ríkisstjórnin sem er að fara frá hefur náð nokkuð góðum árangri við að koma efnahagslífinu aftur á rétt spor í kjölfar bankahrunsins. Hún hefur hins vegar ekki tekist með árangursríkum hætti að koma þeim árangri á framfæri. Ég held að margir líti svo á að ríkisstjórnin hafi fremur verið fulltrúi kerfisins en fjölskyldnanna og fólksins í landinu,“ segir Kolbeinn Stefánsson hjá Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands.

Einnig er rætt við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, sem segir að val fólks standi á milli þess að byggja á þeim árangri sem náðst hafi á kjörtímabilinu sem er að líða með stöðugleika, stöðugum hagvexti og lágri verðbólgu eða hvort halda eigi áfram á braut hefðbundinnar hringrásar uppsveiflu og hruns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert