Spennandi og tvísýnar kosningar

„Þetta eru óvenju spennandi og tvísýnar kosningar. Ef við bætum aðeins við okkur frá síðustu skoðanakönnunum þá verðum við í sterkri samningsstöðu til þess að ná fram því sem að við teljum nauðsynlegt að gerist hér. Bæði varðandi þetta mikla réttlætismál að komið verði til móts við skuldsett heimili en jafnframt að nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi til þess að auka verðmætasköpun og byggja upp velferðarkerfið og ekki síst heilbrigðiskerfið.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í samtali við mbl.is spurður að því hvernig kosningarnar leggjast í hann. Sigmundur kaus í morgun á Egilsstöðum en hann flutti lögheimili sitt í vetur í Norðausturkjördæmi þar sem hann er í framboði. „Samningsstaða okkar þarf að vera slík að við getum knúið á um þetta. Annars sjáum við fyrir okkur hættu á að mynduð verði ríkisstjórn gegn því sem við höfum verið að beita okkur fyrir.“

Sigmundur hitti framsóknarfólk á Egilsstöðum og þar á meðal Vilhjálm Hjálmarsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins. „Það var mjög skemmtilegt að hitta hann. Hann kom síðan með okkur á kosningaskrifstofuna og sagði okkur sögur úr fyrri kosningabaráttum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert