„Allir samgleðjast mér“

Jóhanna María Sigmundsdóttir er nýr þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og …
Jóhanna María Sigmundsdóttir er nýr þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og yngst kjörinna þingmanna.

„Stuttu eftir að ég gekk í flokkinn í sumar, fór ég í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins. Eftir það var ég hvött til þess af mörgum í Félagi ungra framsóknarmanna að gefa kost á mér á lista, en mér leist ekkert á það í byrjun, mér fannst það þá vera afleit hugmynd. En ég hugsaði málið og ákvað að slá til,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, nýr þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Hún er 21 árs og yngst þeirra sem hafa náð kjöri á Alþingi.

Jóhanna er búfræðingur að mennt, hún er sauðfjárbóndi á Látrum í Mjóafirði við Ísafjörð, starfandi formaður Samtaka ungra bænda og varaformaður Sambands ungra framsóknarmanna.

Í nótt sló hún met; áður var Gunnar Thoroddsen yngstur kjörinna alþingismanna, en hann var 23 ára og 177 daga er hann var kosinn á þing árið 1934. Birkir Jón Jónsson var 23 ára og 290 daga þegar hann var kjörinn á þing árið 2003 og Ragnar Arnalds var 24 ára og 336 daga er hann var kjörinn á þing árið 1963. 

Næstyngsta konan á eftir Jóhönnu Maríu er Ragnhildur Helgadóttir sem var 26 ára og 29 daga er hún náði kjöri árið 1956.

Átti ekki von á að ná kjöri

Jóhanna María segist ekki hafa gengið með þingmanninn í maganum, eins og það er stundum nefnt, og hún hafi ekki átt von á að ná kjöri. Framsóknarflokkurinn bætti verulega við sig í kjördæminu og fékk fjóra menn, í síðustu kosningum fékk flokkurinn tvo menn kjörna, annar þeirra var Guðmundur Steingrímsson sem síðan gekk til liðs við Samfylkinguna og Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við flokkinn frá Vinstri grænum. Jóhanna var í fjórða sæti listans og er áttundi þingmaður kjördæmisins. „En við bættum svo miklu fylgi við okkur og þetta kom verulega á óvart,“ segir hún.

Finnur fyrir miklum stuðningi

Viðbrögð vina og ættingja hafa verið á einn veg að sögn Jóhönnu. „Ég hef alls staðar fundið fyrir ótrúlegum stuðningi. Allir samgleðjast mér.“

Spurð hver verði hennar fyrstu verk á þingi segist hún ætla að starfa ötullega í þágu heimilanna með öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert