„Auðvitað eru þetta vonbrigði,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem tekur á sig mesta tapið í þingkosningunum ef marka má tölur á þessu stigi málsins. Árni Páll segir það synd hve umbótaöflin í samfélaginu séu sundruð.
„Hugmyndin um samfylkingu jafnaðarmanna sannar gildi sitt núna. Það er mjög mikilvægt að fylkja saman umbótasinnuðu fólki á miðju og vinstri væng íslenskra stjórnmála. Það eru gömul sannindi og þau endursannast í dag,“ segir Árni Páll.
„Umbótaöflin, ef svo má að orði komast, þeir sem vilja einhverjar breytingar í samfélaginu, þau eru með meirihluta atkvæða, en þau eru bara út um allt. Þetta er ekki nein traustsyfirlýsing við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Lýðræðislegt umboð þeirra til að breyta samfélaginu og hefja aftur helmingaskiptastjórn er nákvæmlega ekki neitt,“ segir Árni Páll.
Niðurstöðurnar í kvöld segir Árni Páll svipaðar því sem skoðanakannanir hafi sýnt. „Við vorum að vona að ná kannski viðspyrnu á lokametrunum, en þetta er búið að vera í kortunum býsna lengi.“
Árni Páll segir að margt reiknist inn í tapið. Þetta sé líka dómur yfir ríkisstjórn auk þess sem margir séu enn að upplifa sárindi og erfiðar aðstæður vegna hrunsins og greini kannski ekki sérstaklega á milli hvað af því sé ríkisstjórn að kenna og hvað sé óhjákvæmileg afleiðing af hruni gjaldmiðils, hækkandi skuldum og minni kaupmætti.
Björt framtíð með sömu stefnu
„Síðan er auðvitað sú staðreynd að við höfum verið í þeirri stöðu að það er flokkur sem er með mjög svipaða stefnu og við, sem er algjörlega óbrenndur af verkum og án þess að við viljum eigna okkur fylgi þeirra þá er það bara þannig að þau eru að tala fyrir Evrópusinnuðum, miðjusæknum, grænum viðhorfum sem er einmitt það sama og við höfum verið að gera.“
Aðspurður segist Árni Páll ekki eiga von á að staðan taki miklum sviptingum þegar líður á nóttina. „Þetta breytist nú ekkert stórt held ég. Við þurfum að búa okkur undir það að við erum að tapa miklu fylgi.“