„Eðlilegur fyrsti kostur“

Bjarni Benediktsson segir eðlilegt að fyrsti kostur við stjórnarmyndun sé …
Bjarni Benediktsson segir eðlilegt að fyrsti kostur við stjórnarmyndun sé Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Sigmundur Davíð segir málefnin skipta mestu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við erum tilbúin að leiða ríkisstjórn,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í fréttaskýringaþætti Egils Helgasonar á RÚV í dag.

Hann sagði það vel koma til greina að sá flokkur sem hefði fengið flest atkvæðin og mestan stuðning landsmanna fengi umboð til stjórnarmyndunar. Hins vegar væri rétt að Framsóknarflokkurinn hefði bætt mestu við sig í kosningunum.

Spurður hvort ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks yrði að veruleika sagði hann: „Mér finnst það vera eðlilegur fyrsti kostur en það er aldrei sjálfgefið að menn nái saman.“

Formenn stjórnmálaflokkanna virtust flestir sammála um að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndu fyrst reyna við stjórnarmyndun. Þó var blæbrigðamunur á svörum þeirra.

„Eðlilegt að veita Sigmundi Davíð umboðið“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði Framsóknarflokkinn sigurvegara kosninganna og því væri eðlilegt að forsetinn velti því fyrir sér að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins, stjórnarmyndunarumboð.

Sigmundur Davíð svaraði því þannig til hann vildi leyfa forsetanum að meta það án þess að koma með yfirlýsingar um hvað forsetinn ætti að gera.

„Ég hef ekki mikla skoðun á því. Mér finnst þetta sannfærandi rök fyrir því að Sigmundur eigi að fá umboðið. Það eru tveir jafnstórir þingflokkar og annar var að vinna sigur. En við vorum líka að vinna sigur. Við erum hinn sigurvegari kosninganna en ég geri ekki ráð fyrir að Ólafur veiti okkur umboðið, ekki í fyrstu tilraun,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagðist ekki vita hvað forseti Íslands myndi gera og að hann yrði auðvitað að meta það eftir að hann talaði við formenn flokkanna.

„Ég á von á því að forseti tali við alla flokkanna - það er hefðin,“ sagði hann og að margt mælti með því að formaður sigurvegara kosninganna, sá flokkur sem bætti mest við sig, fengi umboðið.

Segir stjórnarmyndun snúast um málefni

„Auðvitað hlýtur stjórnarmyndum fyrst og fremst að snúast um málefni. Þar höfum við verið mjög afdráttarlaus með stór mál og mikilvægi þess að þau nái fram að ganga. Það hlýtur að vera númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Sigmundur Davíð.

Katrín Jakobsdóttir sagði það ákveðið afturhvarf til þess sem við þekkt væri frá árum áður og hún sagði að þegar litið væri á verkefnin framundan væri mikilvægt að ný ríkisstjórn hefði langtímahagsmuni í huga og að það þyrfti breiða skírskotun við myndun hennar og ríkisstjórn sem væri fær um að skapa sátt í samfélaginu.

Jón Þór Ólafsson, nýr þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði að sér þætti líklegasta ríkisstjórnin stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Framsóknarflokksins.

Hann sagðist vona að sú stjórn myndi taka upp beinna lýðræði og gegnsærri stjórnsýslu. Það væri lykilatriði að fólk fengi að taka meiri þátt í ákvörðunum sem vörðuðu almenning.

Árni Páll sagði það algjörlega í höndum Bjarna og Sigmundar Davíðs hvort stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks yrði mynduð. Þeir hefðu öll spil á hendi hvað það varðaði þó svo að þeir hefðu ekki unnið neinn yfirburðasigur meðal þjóðarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Rax
Jón Þór Ólafsson, nýr þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, nýr þingmaður Pírata. Píratar
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Photographer: Hordur Sveinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert