„Gamalkunnugt mynstur“

Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason í gær.
Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Niðurstöður kosninganna eru að mörgu leyti gamalkunnugt mynstur frá tíma gamla fjórflokksins; Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Ljóst er að það mun taka tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn að endurvinna það traust sem tapaðist í hruninu.

Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. „Útkoman er áhugaverð út frá stjórnmálafræðinni. Margir hafa talað um að hrunið hafi breytt stjórnmálunum og  pólitíska landslaginu. Fjölmargir nýir flokkar buðu fram, en hver er niðurstaðan? Við sjáum gamalkunnugt mynstur birtast. Ef borin eru saman kosningaúrslitin núna og vorið 1995, áður en Samfylkingin varð til, þá eru tölurnar ótrúlega líkar því sem þá var, þ.e.a.s. þá fékk Framsókn mjög góða niðurstöðu.“

Stefanía segir að Alþýðuflokkurinn hafi beðið afhroð í kosningunum 1995. „Þá fékk hann 11,7% fylgi, núna er Samfylkingin með tæp 13%. Alþýðubandalagið kom líka illa út í þessum kosningum, var með 14,3% en Vinstri græn eru nú með 10,9%. Núna eru Samfylkingin og VG komin á svipaðar slóðir og Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið voru í gamla daga.“

Sjálfstæðisflokkur ekki búinn að endurheimta fyrri styrk

Stefanía segir fleira líkt með úrslitum kosninganna fyrir 18 árum og nú. „Árið 1995 var Kvennalistinn með 4,9% og þrjá menn, nú fá Píratarnir 5,2% og þrjá menn. Svo var Þjóðvaki, sem var klofningsflokkur Jóhönnu Sigurðardóttur út úr Alþýðuflokknum, með 7,2% og Björt framtíð, sem sumir telja klofning út úr Samfylkingunni, fær núna 8,2%. Þessi líkindi eru ótrúlega sláandi.“

Það eina, sem er í rauninni ólíkt með þessum tveimur úrslitum er fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem nú er töluvert minna en það var árið 1995. „Sjálfstæðisflokkurinn fær 26,7% núna en fékk 37,1% árið 1995. Þó flokkurinn sé vissulega að bæta við sig núna, þá er hann ekki búinn að endurheimta fyrri styrk og það endurspeglar það að traustið sem tapaðist í hruninu er að skila sér, en það gerist hægt.“

Engar stórvægilegar breytingar á flokkakerfinu

Stefanía segir að þrátt fyrir öll þessu nýju framboð sem buðu fram núna hafi engar stórvægilegar breytingar orðið á flokkakerfinu og að við séum að hverfa til tímans fyrir sameiningu vinstrimanna. „Við erum að fást við mannlegt eðli og atferli og lífsskoðanir fólks breytast ekki á einni nóttu. Kosningahegðun endurspeglar lífsgildi og lífsafstöðu fólks. Samt eru um 25% að kjósa annað en þessa fjóra aðalflokka og það hlutfall er reyndar mjög hátt í sögulegu ljósi, en síðast kusu 90% fjóra stærstu flokkana.“

Líklegt að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn leiti fyrir sér

Stefanía segir líklegast í ljósi niðurstöðunnar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkur leiti fyrir sér um stjórnarsamstarf, þó hvorugur flokkanna hafi útlokað samstarf til vinstri. „Sigurvegari kosninganna er klárlega Framsóknarflokkurinn. Hann er orðinn næstum því jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn og er stærsti landsbyggðarflokkurinn,“ segir Stefanía og segir það ekki gefið að Sjálfstæðisflokkurinn fái stjórnarmyndunarumboðið þó hann hafi fengið mest fylgi.  

„Það gæti allt eins farið að Sigmundi Davíð yrði falið að mynda stjórn vegna þess að hann hefur mælst með mestan stuðning forystumanna sem forsætisráðherra í skoðanakönnunum. Annars eru engar reglur varðandi hverjum eigi að veita stjórnarmyndunarumboðið, það er svo óalgengt að ríkisstjórn tapi meirihlutanum, það hefur ekki gerst á síðari tímum.“

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka