Ganga sátt frá borði

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Júlíusdóttir varaformaður.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Júlíusdóttir varaformaður. mbl.is/Rósa Braga

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina ganga sátta frá borði þó niðurstöður kosningarinnar séu vissulega mikil vonbrigði. Þeir flokkar sem komast til valda muni nýta sér góðan árangur  fráfarandi ríkisstjórnar.

Í samtali við kosningasjónvarp Ríkisútvarpsins á sjötta tímanum í nótt sagðist Katrín í raun ekki hafa búist við annarri niðurstöðu. Hún hafi hugsað með sér þegar hún tók við sem ráðherra að ríkisstjórnin yrði aldrei sú vinsælasta. Verkefnin sem við henni blöstu hafi verið erfið og óvinsæl. Árangurinn hafi hins vegar verið afar góður og öll kosningaloforð flokkanna sem buðu fram séu byggð á þeim árangri.

Katrín sagði ljóst að Samfylkingin þurfi að fara í naflaskoðun, fara vandlega í gegnum stöðuna og skoða hvernig jafnaðarmenn komi skilaboðum sínum betur á framfæri. Hún benti á að jafnaðarmenn hafi farið í þrennu lagi inn í kosningarnar, Björt framtíð og Lýðræðisvaktin hafi talað fyrir sömu málum og Samfylkingin. Nú þurfi jafnaðarmenn að ná vopnum sínum á ný.

Þá sagði hún að ný forysta flokksins hefði hugsanlega fengið of lítinn tíma. Aðalatriðið sé þó að flokksmenn hafi ekki verið nægilega duglegir að upplýsa um það góða sem ríkisstjórnin gerði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert