„Ég mun auðvitað óska eftir afsögn fyrir mig og mína ríkisstjórn,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem í dag mun hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að máli. „Ég mun síðan skila inn umboðinu, það er ekkert annað að gera í þessari stöðu.“
Þetta sagði Jóhanna í viðtali á Stöð 2 í hádeginu. Hún sagðist ekki ætla að hafa skoðun á því hvort Samfylkingin yrði hluti af ríkisstjórn, það væri núverandi forystu að ákveða það. „Það er ljóst að það er mikið tap sem við stöndum frammi fyrir, þrátt fyrir að við höfum unnið stór afrek í því að endurreisa hér samfélagið, hér blasti við þjóðargjaldþrot og þrátt fyrir að hafa farið hér í stór umbótamál.“
Jóhann sagðist telja að næsta ríkisstjórn yrði mynduð af Sjálfstæðisflokki og Framsókn og sagði árangur Framsóknar góðan. „Ég óska Sigmundi Davíð innilega til hamingju með þann árangur sem hann hefur náð og sömuleiðis þessum tveimur nýju flokkum, Pírötum og Bjartri framtíð. Það er ljóst að við höfum tapað verulega á því að Björt framtíð bauð fram. En ég sé enga sérstaka ástæðu til að óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju, þetta er lélegt fylgi sem hann er með miðað við söguna.“
Jóhanna sagði að sér væri ekkert sérstaklega rótt að hugsa til þeirra verka sem hugsanleg ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks myndi leggja áherslu á.
Jóhanna var spurð að því hvort Samfylkingin ætti nokkurt erindi í ríkisstjórn eftir að hafa beðið slíkt afhroð. Hún sagðist telja að jafnaðarstefnan ætti alltaf erindi í ríkisstjórn, en flokkurinn yrði að meta stöðuna hverju sinni. „Loforðin sem þarna voru sett fram af Framsóknarflokknum og að hluta til af Sjálfstæðisflokknum, ég get ekki séð miðað við þá stefnu sem við setjum fram að [...] við getum átt samleið með þeim.“
Spurð að því hvort það hefði ekki verið ábyrgðarleysi að sitja út kjörtímabilið eftir að verulega var farið að kvarnast úr báðum stjórnarflokkunum sagði Jóhanna svo ekki vera. „Það var varla hægt að gefast upp og hætta í miðri ánni. Það var erfitt að ná þessum árangri, það tók tíma og þolinmæði.“
Hún sagði of mikinn tíma hafa farið í stjórnarskrármálið og að þeir flokkar sem hefðu fengið mest fylgi í kosningunum hefðu tafið það. Stjórnarandstaðan hefði verið ósanngjörn.
Jóhanna var spurð að því hvort Árna Páli Árnasyni væri stætt í formannsembættinu eftir niðurstöður kosninganna. Hún sagðist sannfærð um að hann hefði gert allt sitt besta til þess að ná árangri. „Ég er viss um að hann lagði allan sinn kraft í það.“