„Þetta fylgishrun varð fyrr“

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er niðurstaða kosninga og við hana unum við. Ég held að þessi niðurstaða sýni að breiðfylking jafnaðarmanna er mikilvægari en nokkru sinni,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar um úrslit kosninga.

„Þá skiptir mjög miklu máli fyrir þann flokk sem stofnaður var til að verða breiðfylking jafnaðarmanna að hann haldi þeim lykil eiginleikum að ætla sér að hafa hátt til lofts og vítt til veggja. Það sem skiptir auðvitað miklu máli fyrir þjóðina í heild að það sé alvöru jafnaðarmannaflokkur sem að hegðar sér eins og breiðfylking, hugsar eins og breiðfylking og kemur fram eins og breiðfylking því að það skiptir máli í stjórnmálum almennt séð að það sé það afl að almannahagsmunir eigi þar ákveðna viðspyrnu,“ segir Árni Páll.

-Eitthvað sem þú myndir hafa gert öðruvísi í kosningabaráttunni?

„Ég held að kosningabaráttan hafi ekki skipt höfuðmáli í þessari niðurstöðu. Þetta fylgishrun varð fyrr eða í janúarmánuði og náum ekki að vinna það til baka. Staða okkar var mjög þröng með nútímalega alþjóðlega sinnaðan valkost [til hliðar] sem var Björt framtíð. Svo var samstarfsflokkur okkar úr ríkisstjórn með svipaðar áherslur og við svo það var svolítið þröngt á hinu sósíal-demokratíska þingi.“

Fylgishrun kom á sama tíma og Icesave-dómur

„Það er rétt að við höfum lagt mikla áherslu á mál ríkisstjórnarinnar og þann stöðugleika sem hún lagði áherslu á að byggja upp. En það var alveg ljóst að áhyggjur almennings í þessari kosningabaráttu og umhugsunarefni almennings í þessari kosningabaráttu voru ekki í ýmsum af þessum málum sem þú nefnir,“ segir Árni Páll spurður að því hvort það kunni að hafa haft áhrif á fylgishrunið hversu mikla áherslu stjórnarflokkarnir hafi lagt á stórpólitísk mál eins og stjórnarskrána, aðildarferli að Evrópusambandinu og fleiri mál sem miklar deilur voru um á kjörtímabilinu eins og átökin um Icesave-samningana.

„Fylgishrun okkar niður í þessar tölur verður á sama tíma og Icesave-dómurinn og síðan er það auðvitað þannig að það reynist vera þannig að kannski færðist sjónarhorn kjósenda við þá niðurstöðu alveg yfir á budduna,“ segir Árni Páll.

Ekki gott að gera stjórnarskrána að flokkspólitísku deilumáli

-Nú er búið að eyða miklum tíma í að ræða stjórnarskrárbreytingar og verja töluverðum peningum í stjórnlagaráð, stjórnlagaráðskosningar og þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá flokkur sem var stofnaður utan um það mál fékk 2,5% og stjórnarflokkarnir sem voru með málið í þinginu missa 27,7% fylgi nú. Sýnir það kannski að þetta var ekki málið sem þjóðin var að hugsa um - sérstaklega í ljósi þess að það var mjög lítil kosningaþátttaka bæði til stjórnlagaráðs og í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust?

„Ég held að það hafi verið mikilvægt að ráðast í stjórnskipunarumbætur og það hafi verið fullkomlega réttlætanlegt en ég hef oft sagt og við ýmis tækifæri að það sé ekki gott að gera stjórnarskrána að flokkspólitísku deilumáli og sagði það líka að það skipti máli núna í vor, en þá sá maður að þetta stjórnarskrármál var ekki að fara að verða stórt kosningamál. Það lá fyrir snemma í marsmánuði. Við auðvitað vorum að reyna líka að koma því í viðunandi farveg og náðum niðurstöðu um það mál sem skiptir máli núna því nú er málið á dagskrá fyrir tilverkan þessa breytingaákvæðis.“

Bíða og sjá hvernig viðræður stærstu flokka fara

-Hvernig sérðu stöðuna með ríkisstjórnarmyndun?

„Það er auðvitað í höndum þeirra flokka sem mest fylgi fengu, hvort þeir kjósa að vinna saman. Hvort þeir kjósa að bindast samtökum. Það er þeirra val. Við erum svolítið að bíða eftir því að sjá hvernig það fer. Frumkvæðið er ekki á okkar höndum en Samfylkingin er alltaf til viðræðna um stjórnarmyndun á málefnalegum forsendum.“

-Ætti Samfylkingin auðvelt með að semja við Framsóknarflokkinn um ESB og eins um ráðstöfun fjár sem hugsanlega næst frá Vogunarsjóðunum?

„Ef það kæmi upp á yfirborðið að við ættum eitthvað samtal við Framsóknarflokkinn í stjórnarmyndun þá eru þetta auðvitað tvö mál sem miklu skipta. Það skiptir miklu með hvaða hætti það yrði með aðildarmálið og auðvitað skiptir það miklu fyrir þjóðarhag að aðildarumsóknin geti haldið áfram. En með sama hætti þarf líka öll skuldaúrlausn að vera með þeim hætti að það samrýmist þjóðarhag og almannahagsmunum þannig að ekki sé um óásættanlegar eignatilfærslur og annað slíkt að ræða. Maður hefur svosem aldrei séð mikið af útfærslum af hálfu framsóknarmanna þar. Ég held að það bíði svosem allir eftir því að sjá þær.“

Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason á kosningakvöldi.
Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason á kosningakvöldi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar fylgist með tölum í Efstaleitinu …
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar fylgist með tölum í Efstaleitinu ásamt formönnum flokkanna á kosninganótt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert