Horfur eru á að um 10 þingmenn sem sóttust eftir endurkjöri nái ekki kjöri á þing í þessum kosningum. Flestir þingmenn sem falla af þingi koma frá Samfylkingunni.
Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar náðu ekki það ofarlega á lista í prófkjöri að nokkuð ljóst var að þeir myndu tæplega ná kjöri á þing. Þetta voru Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Það bendir einnig flest til að Ólína Þorvarðardóttir nái ekki endurkjöri. Miðað við fyrstu tölur nær Björgvin G. Sigurðsson ekki á þing og sama á við þá sem sitja í 3. sæti á listum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum, þeir Skúli Helgason og Mörður Árnason.
Björn Valur Gíslason og Ólafur Þór Gunnarsson, þingmenn VG, náðu ekki eins ofarlega á lista í prófkjörum og þeir vonuðust eftir. Engar líkur eru á að þeir verði endurkjörnir.
Dögun fær ekki mann kjörinn á þing samkvæmt fyrstu tölum og því eru litlar líkur á að Margrét Tryggvadóttir, núverandi þingmaður Hreyfingarinnar, verði áfram þingmaður.
Ekki eru horfur á að Jón Bjarnason nái kjöri fyrir hönd Regnbogans, en hann er núna þingmaður utan flokka.
Tvísýnt er um hvort Píratar nái manni á þing. Ef þeim mistekst að komast yfir 5% markið dettur Birgitta Jónasdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, út af þingi.