Bjarni: Óþarfi að flækja myndina

„Mér finnst það vera í mjög góðu samræmi við niðurstöður kosninganna að þessir tveir flokkar [Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn] myndu hefja samtalið og málefnalega sé ég svosem engin stór mál sem ættu að koma í veg fyrir það, þó að það þurfi að vinna úr einstaka þáttum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þetta sagði Bjarni eftir að hafa fundað með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Ólafur fundar í dag með öllum formönnum flokkanna til að fá fram afstöðu þeirra varðandi það hvaða stjórnmálaflokkur eigi að hljóta umboð til að mynda nýja ríkisstjórn.

Bjarni segist vilja mynda tveggja flokka stjórn og Framsóknarflokkurinn sé augljósasti kosturinn í stöðunni. Hann kveðst vera reiðubúinn að hefja vinnu við myndun nýrrar ríkisstjórnar strax. Ein til tvær vikur ættu að duga til að ljúka þeim viðræðum.

Spurður út í aðra valkosti sjálfstæðismanna til myndunar á nýrri stjórn segir Bjarni: „Það er ekki hægt að segja að það séu neinar alvöruviðræður komnar af stað, hvorki við Framsóknarflokkinn né aðra. En ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að setja kraft í viðræður sín á milli núna og geri ráð fyrir því að við gerum það strax í dag. Aðrir hafa í sjálfu sér ekkert verið inni í myndinni og menn eiga ekki að vera að flækja myndina of mikið þegar þetta blasir við sem fyrsti kostur að mínu áliti,“ segir Bjarni.

Vill hefja viðræður við Framsókn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fundaði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fundaði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert