Soffía frænka ekki eins vinsæl og Kasper, Jesper og Jónatan

Árni Þór Sigurðsson á landsfundi VG
Árni Þór Sigurðsson á landsfundi VG mbl.is/Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, líkir ríkisstjórnarflokkunum við Soffíu frænku í Kardimommubænum og bendir á að hún hafi aldrei verið eins vinsæl og þeir Kasper, Jesper og Jónatan.

„Heimsbókmenntirnar geta stundum komið að gagni við að útskýra eða skilja þróun mála og samhengi hluta.  Mér dettur helst í hug ævintýri Thorbjörns Egner um Kardimommubæinn þegar horft er á gengi ríkisstjórnarflokkanna í Alþingiskosningunum í gær. Soffía frænka var jú aldrei eins vinsæl og þeir Kasper, Jesper og Jónatan, en hún vann þarft verk við að skúra, skrúbba og bóna og náði góðum árangri,“ segir Árni Þór á heimasíðu sinni.

Kosningarnar besti dómarinn um mótstöðuna innan VG

Árni Þór segir að segja megi að báðir stjórnarflokkarnir hafi glímt við klofningsframboð. „Í tilfelli VG tóku nokkrir fyrrum félagar sig til, vegna mótstöðu við að þjóðin fengi að ráða örlögum sínum gagnvart ESB eins og landsfundur flokksins ákvað strax snemmárs 2009, og lögðu sig í líma við að eyðileggja eins og þeir frekast gátu fyrir hreyfingunni, og fóru raunar yfir strikið í auglýsingaherferð sinni. Þessir félagar hljóta nú að vera ánægðir með að hafa náð því markmiði sínu að valda hreyfingu vinstri manna og umhverfissinna tjóni og varða um leið veg hægri aflanna í stjórnarráðið. Svona getur einstrengingsháttur leikið jafnvel hið ágætasta fólk. En árangur þeirra í kosningunum er besti dómarinn um þá vegferð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert