„Við viljum ekki taka þátt í ríkisstjórn,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn hjá Pírötum, aðspurð hvort leitað hefði verið eftir þátttöku Pírata í nýrri ríkisstjórn. Birgitta var síðust formanna til að funda með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.
Birgitta sagði mjög margt athyglivert hafa komið fram á fundinum með forsetanum. „En ég ætla að láta forsetanum það eftir að ræða heildarmyndina sem mun væntanlega koma í ljós á morgun.“
Hún sagði Pírata ætla sér að vinna eins og Hreyfingin hefði gert á Alþingi á síðasta kjörtímabili. Þannig gæti fámennur flokkurinn haft sem mest áhrif. „Við viljum halda áfram að vinna á þessum lýðræðislega grunni, þar sem Alþingi fær meiri völd til að taka ákvarðanir.“