Vill hefja viðræður við Framsókn

„Ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að setja kraft í viðræður sín í milli núna og geri ráð fyrir því að við gerum það strax í dag,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fund sinn með forseta Íslands á Bessastöðum.

Bjarni segir að Framsóknarflokkurinn blasi við sem fyrsti valkostur Sjálfstæðisflokksins, þ.e. fái flokkurinn umboð til að hefja viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Bjarni bíður nú eftir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um hvaða flokkur muni fá umboð til að mynda nýja stjórn. 

Ólafur mun ræða við formenn alla flokkanna í dag. Fundur Ólafs og Bjarna hófst kl. 11 og stóð í tæpan einn og hálfan tíma.

Spurður út í fundinn með forsetanum, segir Bjarni að þeir hafi rætt um kjörtímabilið framundan og mikilvægi þess að það geti tekist samstarf milli flokka um skýra stefnu sem mæti væntingum úti í þjóðfélaginu.

„Það eru miklar væntingar úti í þjóðfélaginu um kjarabætur á komandi árum. Þess vegna skiptir máli að menn séu með samtaka stjórn og öflugan þingmeirihluta til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana. Forsetanum er umhugað um að hér takist að mynd sterka stjórn með skýra stefnu,“ segir Bjarni.

„Ég er svo sannarlega tilbúinn til þess að láta á það reyna  að mynda ríkisstjórn ef til þess kæmi undir okkar forystu. En mér finnst ekki rétt af mönnum að setja sjálfa sig í forgrunn við þær aðstæður sem eru núna. Nú erum við að reyna vinna þjóðinni gagn, og það er málefnalega staðan sem skiptir öllu; stjórnarsáttmálinn og stefnan sem eiga að vera í forgrunni. Við sem sá flokkur sem naut mests fylgis í kosningunum erum að sjálfsögðu tilbúin að rísa undir því trausti sem okkur er sýnt með því.“

Bjarni ítrekaði á fundi með blaðamönnum, að tveggja flokka stjórn sé langsterkasti valkosturinn fyrir þingið og þjóðina. Hann tekur fram að ekki sé hægt að gefa sér neitt í því að menn nái saman í einni tilraun. 

Aðspurður segir Bjarni að það liggi ekki fyrir hver muni leiða slíka stjórn, enda formlegar viðræður ekki hafnar.

Hann telur að ein til tvær vikur ættu að duga til að ná samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Spurður hvort skuldaloforð Framsóknarflokksins muni verða einhver fyrirstaða, sagði Bjarni: „Að grípa til aðgerða fyrir skuldsett heimili var eitt af okkar stóru stefnumálum fyrir þessar kosningar. Auðvitað skiptir mjög miklu máli hvernig menn nálgast það verkefni og leysa það á endanum. En við erum í þessu til þess að finna lausnir fyrir fólkið  í landinu og við munum leggja okkur öll fram um að gera það.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum eftir …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund með forseta Íslands. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert