Formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi segir að útstrikanir í tengslum við þingkosningarnar hafi verið um 150 talsins í kjördæminu. Flestir strikuðu yfir nöfn Framsóknarmannanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Höskuldar Þórhallssonar. Þær hafi verið um 40 hjá hvorum um sig.
„Það vegur ekki stórt,“ segir Páll Hlöðvesson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, í samtali við mbl.is. Páll segist ekki hafa nákvæmar tölur undir höndum en gögnin hafa verið send til landskjörstjórnar.
Hann tekur fram að þetta hafi engin áhrif á röð manna á listum. Minna var um útstrikanir hjá öðrum frambjóðendum.