Framsókn ekki með „einkaleyfi“ á viðræðum

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa ekki enn rætt …
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa ekki enn rætt saman um stjórnarmyndun. mbl.is

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að ekki sé hægt að ræða við marga flokka í einu um stjórnarmyndun eins og Framsóknarflokkurinn geri nú. Hann segir að Framsóknarflokkurinn sé ekki með einkaleyfi á því að ræða við aðra flokka um stjórnarmyndun og að Sjálfstæðisflokkurinn sé opinn fyrir því að ræða við aðra flokka en Framsóknarflokkinn.

„Það er ekki hægt að vera í stjórnarmyndunarviðræðum við marga flokka í einu. Ég mun ekki hefja neinar stjórnarmyndunarviðræður á meðan verið er að ræða við aðra. En ef að það er línan að allir séu að ræða við alla, þá verður það þannig. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að ræða við aðra flokka. Það gildir ekki bara um Framsóknarflokkinn,“ segir Bjarni. 

Aðspurður segist Bjarni ekki hafa verið í sambandi við aðra flokka í dag. „Ég hef heyrt í öðrum flokkum eftir kosningar. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég teldi réttast að þeir tveir flokkar sem unnu kosningarnar myndu hefja viðræður. Mér heyrist að það sé annað hljóð í Framsóknarflokknum,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að Sigmundur Davíð þurfi að klára viðræður við vinstri flokkana áður en hann ræðir við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnarmyndun en bætir við. „Ef að allir eru að ræða við alla, þá er Framsóknarflokkurinn ekki með einkaleyfi á því,“ segir Bjarni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur rætt við Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar og Birgittu Jónsdóttur Kaftein Pírata. Ef farið er eftir þeirri stafrófsröð sem Sigmundur Davíð talaði um að fara eftir við stjórnarmyndunarviðræður ætti Bjarni að vera næstur í röðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert