Hægt hefur á efnahagsbata hér á landi og horfur hafa versnað nokkuð. Afurðaverð hefur lækkað á útflutningsmörkuðum Íslendinga, einkum í Evrópu. Þannig hefur meðalútflutningsverð sjávarafurða lækkað og álverð hefur einnig verið lágt. Fjárfesting einkageirans er enn lág og fjárfestingaráform eru takmörkuð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju riti Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleika.
„Helstu áhættuþættir fyrir fjármálakerfið um þessar mundir eru uppgjör innlánsstofnana í slitameðferð, fjármagnshöftin og losun þeirra, endurfjármögnunaráhætta, staða Íbúðalánasjóðs og og stjórnmálaleg áhætta. Það er mikilvægt fyrir fjármálastöðugleika að pólitískar ákvarðanir sem varða fjármálakerfið og losun hafta séu vel ígrundaðar og hafi stöðugleika í efnahagsmálum einnig að leiðarljósi,“ segir í Fjármálastöðugleika.