„Ég hef ekki talað sjálfur við Sigmund og það er enginn fundur ákveðinn með honum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í gærkvöldi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ræddi við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, og Birgittu Jónsdóttur, kaptein Pírata, í gær. Forseti Íslands fékk Sigmundi Davíð umboð til stjórnarmyndunar í gærmorgun.
Sigmundur Davíð ætlar að hitta aðra formenn stjórnmálaflokka í dag. Í framhaldi af því má vænta ákvörðunar um við hvern eða hverja hann hyggst hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður, að sögn heimildarmanns í Framsóknarflokknum.
Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, höfðu ekki rætt saman þegar haft var samband við Bjarna í gærkvöldi.
Að sögn Bjarna er ekki hægt að eiga í stjórnarmyndunarviðræðum við marga flokka í einu eins og Framsóknarflokkurinn virðist ætla að gera nú. Sigmundur Davíð tali meira að segja við þá flokka sem hafi lýst því sérstaklega yfir að þeir vilji ekki vera í ríkisstjórn. Bjarni sagðist þeirrar skoðunar að tveir stærstu flokkarnir, þ.e. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hefðu án frekari málalenginga átt að láta reyna á stjórnarsamstarf. Greinilegt væri að Framsóknarflokkurinn vildi nálgast málið með öðrum hætti og því þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að vera opinn fyrir öðrum möguleikum enda Framsóknarflokkurinn ekki með einkaleyfi á viðræðum við aðra flokka.
„Ætli Framsóknarflokkurinn að ræða við vinstri flokkana þá gerir hann það og fær sinn tíma til þess. Eitt er ljóst. Það eru þá engar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn á meðan og hann getur skoðað aðra möguleika,“ sagði Bjarni.