Minnihlutastjórn möguleg?

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé mögulegt að útkoma stjórnarmyndunar muni koma öllum á óvart. Meira segi ég ekki að svo stöddu. Ég vona það allavega,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni í dag en hún segist hafa átt mjög gott samtal við bæði Ólaf Ragnar Gímsson, forseta Íslands, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins í gær.

Birgitta segir að margir sem fastir séu í viðjum hefða haldi að Píratar séu ekki reiðubúnir að fara nýjar leiðir þó þeir sækist ekki eftir ráðherrastólum. Minnihlutastjórnir séu til að mynda góð leið til þess að efla betri þingmenningu. „Það eru mistök að halda að eini möguleikinn sé gamla Ísland.“

Hún gagnrýnir síðan Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að reyna að þvinga fram samningsstöðu í fjölmiðlum. Það sé ekki vænlegt til árangurs þegar verið sé að kanna hvort samstarfsflötur sé á milli fólks.

Innt eftir frekari upplýsingum í athugasemd í nafni gegnsæis segir hún: „Ef ég fer að gaspra áður en heildarmynd er sýnileg þá gæti ég hreinlega eyðilagt ferli sem mér finnst mikilvægt að láta reyna á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert