„Hann er að segja: Það erum við sem ráðum. Ef þið viljið vinna með okkur látið okkur þá vita, en það er ég sem er með stjórnarmyndunarumboð forseta og það er ég sem ræð um hvað verður talað og í hvaða röð ég tala við hvern. Það er ykkar að segja já eða nei.“
Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, aðspurður hverskonar stöðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, væri að marka sér og sínum flokki. Sigmundur hefur undanfarna daga rætt við forystumenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi án þess að hafa hafið formlega stjórnarmyndun. Guðni hefur kynnt sér ríkisstjórnarmyndanir og hvernig fyrirkomulag þeirra hefur verið hér á landi í gegnum tíðina.
Guðni segir að miðað við það sem fram hefur komið frá Sigmundi og þeim sem hann hefur rætt við sé staðan sú að hann sé að kanna hvernig viðkomandi aðilum hugnist að vinna með Framsóknarflokknum, hversu langt þeir séu tilbúnir að koma til móts við sjónarmið flokksins um skuldavanda heimilanna og önnur mikilvæg mál.