Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kannast ekki við „óformlegar“ viðræður við Framsóknarflokkinn um stjórnarmyndum eins og haft var eftir Sigurði Inga Jóhannssyni varaformanni Framsóknarflokksins í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Bjarni segir á Facebook: „Hafði loks tíma í dag til að sækja kaffivélina í viðgerð en hún hafði beðið alla kosningabaráttuna. Það var mikilvægt að klára þetta mál. Eins að fara með símann í viðgerð, en hundurinn hafði nagað hann og skemmt. Mér skilst að í fréttum sé fjallað um óformlegar viðræður við mig um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þær hafi átt sér stað í dag. Ég gæti hafa verið inni í bílskúr eða bak við hús og misst af einhverju en þessar viðræður fóru ekki fram með minni þátttöku. Þetta er þó fróðlegt að heyra,“ segir Bjarni á Facebook.