Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, funduðu öðru sinni í gær.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Sigmundur of snemmt að segja til um hvort það væri vísbending um að Framsóknarflokkurinn væri nær því að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn en aðra flokka.
Sigmundur viðurkennir að skuldamál hafi verið mjög áberandi í viðræðum hans við fulltrúa flokkanna. „Eins og við höfum sagt þá er til lítils að fara í miklar viðræður um hin ýmsu mál ef menn sjá ekki fram á að ná saman í skuldamálum. Þau eru tiltölulega flókin í eðli sínu og það er eðlilegt að menn gefi sér tíma til að kanna hvort það er grundvöllur til að ná saman þar. Vissulega hafa skuldamálin verið þungamiðja í þessu spjalli sem fram hefur farið,“ segir Sigmundur en viðurkennir að önnur mál hafi verið rædd en þó í minni mæli.