„Af hverju í ósköpunum fær fólkið ekki frið til að vinna vinnuna sína? Sigmundur [Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins] hefur sagt að sér liggi ekki lífið á.“ Þetta segir Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í pistli á vefsvæði sínu. Hún segir sjálfsagt að Sigmundur Davíð vilji ekki mynda ríkisstjórn í beinni útsendingu.
Valgerður nefnir Ríkisútvarpið sérstaklega og segir að þar á bæ virðist menn hafa lítinn eða skrítinn skilning á myndun ríkisstjórnar. „Ef ég vissi ekki betur þá héldi ég að menn væru að lýsa einhvers konar síðastaleik.
Sigmundur Davíð er‘ann og svo klukkar hann fólk. Sá sem hann klukkar verður‘ann samt ekki, en halda mætti að sá safnaði stigum. Sigmundur Davíð hleypur stigann, Bjarni faðmar samflokksmenn og Katrín Jak. drekkur kaffi. – Þessar fréttir eru fluttar aftur og aftur.“
Hún spyr hvaðan fréttamenn fái þá áráttu að lýsa stjórnmálum ávallt eins og kappleikjum. „Stjórnmálamenn þurfa vissulega að taka sig á, en það þurfa fréttamennirnir líka. Það er ekki frétt að einn komi inn um aðaldyr með kaffibolla og annar fari út um bakdyr með engan kaffibolla.“