„Við höfum sammælst um þann grundvöll sem við munum byggja viðræðurnar á og það er sú stefna sem við framsóknarmenn boðuðum í kosningunum.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um stjórnarmyndunarviðræðurnar við Sjálfstæðisflokkinn sem hefjast í fyrramálið.
Sigmundur Davíð sagði að þessar formlegu viðræður yrðu áfram milli sín og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, en síðan yrðu kallaðir til þeir sem best þekkja til á hverju sviði þegar farið verður að ræða einstaka málaflokka.
„Viðræður við formennina, a.m.k. suma þeirra, gengu mun betur en ég átti von á,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við mbl.is þegar hann er spurður hvernig viðræður við formenn flokkanna hafi gengið.
„Það var jákvæðari og uppbyggilegri tónn en maður leyfði sér að gera ráð fyrir. Áherslan hjá mér var á að heyra viðhorf flokkanna hvað varðar skuldamálin. Ég hafði að sjálfsögðu heyrt þá lýsa viðhorfum sínum í kosningabaráttu sinni. Menn eru hins vegar stundum opnari eftir kosningar. Það gekk ágætlega, en viðræður við Sjálfstæðisflokkinn þróuðust þannig að menn vildu fá nánari og betri upplýsingar til að geta lagt mat á hlutina. Þegar við töldum að það væri til staðar samningsgrundvöllur hvað varðar skuldamálin þá töldum við rétt að láta reyna á formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn, bæði í ljósi niðurstöðu kosninganna og svo hafa þessir flokkar verið í stjórnarandstöðu á liðnu kjörtímabili.“
Hafið þið Bjarni Benediktsson náð saman um hvernig flokkarnir vilja takast á við skuldir heimilanna?
„Við höfum sammælst um þann grundvöll sem við munum byggja viðræðurnar á og það er sú stefna sem við framsóknarmenn boðuðum í kosningunum. Ég hef jafnframt að sjálfsögðu fallist á að ræða þetta út frá þeirra lausnum. Það hefur skilað því að ég er orðinn bjartsýnni á að það sé hægt að finna á þessu lausn sem allir sætta sig við.“
Ber að skilja þig þannig að það verði farin blönduð leið sem byggir á ykkar stefnu og skattaafsláttarleið sjálfstæðismanna?
„Það eru nokkur prinsippatriði sem eru ófrávíkjanleg í þessu. Við höfum allan tíman sagt að við séum tilbúin til að skoða ólíkar útfærslur til að ná sömu markmiðum. Umræðan er þó ekki komin það langt að ég geti sagt að hún feli í sér blöndu af þessu eða hinu. Mér heyrist að það sé hins vegar orðinn samhljómur um markmiðin.“
Framsóknarflokkurinn lagði í kosningabaráttunni fram tillögu um skattaafslátt eins og Sjálfstæðisflokkurinn.
„Já, það er rétt. Við höfum lagt það til og það er augljóslega eitthvað sem við teljum koma vel til greina að blanda inn í þetta. Það segir sig sjálft.“
Það fer ekki á milli mála að eftir kosningar hefur gætt vissrar óþolinmæði hjá fótgönguliðum í Sjálfstæðisflokknum. Jafnframt er ljóst að viðræður milli formanna flokka byggja á því að skapa traust. Hefur þú engar áhyggjur af því að það hafi skapast visst vantraust á milli flokkanna þessa daga sem liðnir eru frá kosningum?
„Ég skal viðurkenna að framganga sumra sjálfstæðismanna fyrir kosningar, í kosningabaráttunni, þótti mér ekki eins og æskilegast hefði verið. Eitt og annað hefur verið sagt eftir kosningar af hálfu stuðningsmanna flokksins sem hefði verið betra að sleppa. Ég tel ekki að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komið þar að málum. Í stjórnmálum þarf maður hins vegar að horfa fram á veginn.“
Hefur þú gert forseta Íslands grein fyrir stöðunni í viðræðunum?
„Já, þegar þetta var orðið ljóst í dag, upplýsti ég hann um að viðræðurnar væru að fara í þennan farveg, þ.e. að formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn væru að hefjast. Hann ítrekaði það sem hann hefur sagt áður, að þetta sé ekki háð einhverjum tímamörkum, enda gerir hann sér eflaust grein fyrir því að þau mál sem krefjast úrlausnar á næsta kjörtímabili þarfnist góðs undirbúnings og að þetta getur tekið talsverðan tíma.“
Kemur þá ekkert annað til greina, eins og nú horfir, en að mynda stjórn tveggja flokka?
„Þessir tveir flokkar ræða málin núna og sjá hvort þeir ná saman. Ég hef ekki verið fráhverfur þriggja flokka stjórn almennt. Þessir tveir flokkar hafa traustan meirihluta í þinginu og það mun þurfa sterka stjórn til að takast á við þessi úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir.“