„Kosningaúrslitin um síðustu helgi urðu okkur öllum mikil vonbrigði,“ skrifaði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í bréfi til flokksmanna í gær.
Mikil ólga hefur verið innan flokksins eftir „Íslandsmet í fylgistapi“, eins og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi komst að orði á fésbók. Þingmenn sem misstu þingsætið hafa gagnrýnt forystuna opinberlega og kallað eftir endurskoðun á stefnu flokksins. En þingmenn sem náðu kjöri segja ekki tímabært að tjá sig um stöðuna.
Viðmælendum ber saman um að mótframboð sé ekki í kortunum, að minnsta kosti sé umræðan ekki tímabær. En menn skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að því að meta hversu mikið áfall úrslit kosninganna séu fyrir forystuna. Ljóst sé að Árni Páll þurfi að taka frumkvæði og skerpa á stefnu og vinnubrögðum flokksins.
Í sunnudagsblaðinu er farið yfir þær spurningar sem liggja í loftinu og rýnt bak við tjöldin í flokksstarfinu.