Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stærstir

Jón Gnarr
Jón Gnarr mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Besti flokkurinn fengi 32% atkvæða ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Flokkurinn fékk 35% atkvæða í síðustu kosningum. Sjálfstæðismenn mælast einnig með 32% fylgi en fylgi þeirra í kosningunum 2010 var 34%. Sveitastjórnarkosningar verða á næsta ári.

Jafnmargir kjósendur í Reykjavík segjast mundu kjósa Besta flokkinn og Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga nú samkvæmt nýrri Gallupkönnun sem fjallað er um á vef RÚV.

Besti eykur fylgið um 14% frá síðustu könnun en Sjálfstæðisflokkurinn tapar 10% á milli kannanna

Besti flokkurinn mælist með 32 prósenta fylgi og eykst fylgi hans um fjórtán prósent frá síðustu könnun sem gerð var í september í fyrra. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist einnig 32 prósent, en hefur minnkað um tíu prósentustig frá því að kannað var síðast. Flokkarnir nálgast kjörfylgi sitt frá því í kosningunum 2010 en fylgið hefur sveiflast í könnunum síðan þá, hallað hefur á Besta flokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með meira fylgi.

Fylgi annarra flokka breytist minna, Samfylkingin mælist með sautján prósenta fylgi, og tapar þremur prósentustigum frá síðustu könnun, Framsóknarflokkurinn bætir við sig  fimm prósentustigum og mælist með níu prósenta fylgi og Vinstri græn mælast með átta prósenta fylgi. Rúm þrjú prósent segjast mundu kjósa aðra flokka ef kosið yrði til borgarstjórnar nú. 

Miðað við niðurstöður þessarar könnunar fengi Besti flokkurinn fimm borgarfulltrúa kjörna, en flokkurinn er nú með sex manns inni. Sjálfstæðisflokkur héldi sínum fimm, Samfylking fengi þrjá eins og er.

Vinstri hreyfingin grænt framboð væri áfram með einn mann inni og Framsóknarflokkurinn fengi einn mann í borgarstjórn, sem hann hefur ekki í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert