Ráðuneytaskipting ekki verið rædd

Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa gengið vel til þessa og einkum snúið að efnahagsmálum og ríkisfjármálum að sögn Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanna flokkanna. Viðræðurnar, sem hófust síðastliðinn sunnudag, héldu áfram á hádegi í dag en Bjarni og Sigmundur gerðu hlé á þeim skömmu fyrir klukkan tvö til þess að ræða við fjölmiðla.

Sigmundur Davíð sagði aðspurður í samtali við mbl.is að ekki hafi verið lokið viðræðum um neinn málaflokk heldur hafi verið reynt að koma víða við til að byrja með til þess að festast ekki í neinum hjólförum en einkum hafi þó verið rætt um efnahagsmálin til þessa. Bjarni sagði að framundan væri að leggja meiri áherslu á einstaka málaflokka og fara dýpra í þá. Þeir sögðu varhugavert að setja einhverjar tímasetningar á það hvenær mögulegur stjórnarsáttmáli gæti legið fyrir en Bjarni sagði hugsanlegt að það gæti legið fyrir öðru hvoru megin við helgina hver niðurstaða viðræðnanna yrði.

Spurðir hvort rætt hafi verið um mögulega skiptingu ráðuneyta sögðu þeir að það hefði ekki enn verið tekið fyrir að neinu ráði né hugsanlegar breytingar á stjórnarráðinu en báðir sögðu slíkar breytingar koma til greina. Einkum að skipaður yrði sérstakur heilbrigðisráðherra og þá velferðarráðuneytinu annað hvort skipt upp eða tveir ráðherrar skipaðir í það. Sigmundur sagði að aðrar breytingar kæmu einnig til álita eins og á atvinnuvegaráðuneytinu. Ekkert hefði þó verið ákveðið í þeim efnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson í Alþingisgarðinum í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson í Alþingisgarðinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert