„Falli eitthvað eitt mál dautt til jarðar með hruni Samfylkingarinnar er það ESB-aðlögunarmálið,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra í pistli á heimasíðu sinni þar sem hann fer yfir úrslit kosninganna og stjórnarmyndunarviðræðurnar. Segir hann hugmyndir um fjölgun ráðherra vera skref í rétta átt.
Björn segir úrslit kosninganna sýna ótrúlega sveiflu í fylgi frá stjórnarflokkum eftir fjögurra ára valdaferil. „Hún ber þess merki að einhvers staðar á leiðinni hafi samband stjórnarherranna við umhverfi sitt rofnað, þeir hafi látið stjórnast af þrá eftir völdum frekar en raunsæju mati á eigin stöðu og umboði,“ segir Björn og bætir við að kvarnast hafi úr þingflokki VG, einkum vegna hollustu flokksforystunnar við ESB-umsóknina.
Björn segir einnig að allir stjórnarandstæðingar hljóti að fagna niðurstöðum kosninganna. „Útreið ríkisstjórnarinnar er hrikaleg, öll fyrirstaða í hennar þágu brast. Hún er hin eina og sanna hrunstjórn Íslandssögunnar.“ Segir Björn í kortunum að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi ríkisstjórn og að draga ætti til tíðinda bráðum í stjórnarmyndunarviðræðunum. Hann víkur að hugmyndum sem Bjarni Benediktsson hafi reifað um fjölgun ráðherra og segir þær vera „skref í rétta átt frá skemmdarverkinu sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur unnið innan stjórnarráðsins.“