Gera ekki upp á milli út frá kyni

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Kristinn Ingvarsson

„Er það ekki gott for­dæmi í jafn­rétt­is­mál­um ef maður ger­ir ekki upp á milli manna út frá kyni,“ spurði Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráðherra Helga Selj­an þátt­ar­stjórn­anda Kast­ljóss þegar sá síðar­nefndi spurði út í kynja­hlut­fallið í nýrri rík­is­stjórn, en af níu ráðherr­um eru þrjár kon­ur.

Sig­mund­ur Davíð og Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, voru gest­ir í Kast­ljósi Rík­is­út­varps­ins í kvöld. Þar var Sig­mund­ur meðal ann­ars spurður út í kynja­hlut­fallið. Sig­mund­ur svaraði því til að sæt­in væru ekki mörg og fyr­ir vikið gætu sveifl­urn­ar í hlut­föll­um orðið mikl­ar út frá einu sæti. „En þær verða ábyggi­lega á hinn veg­inn líka,“ sagði Sig­mund­ur.

Þegar Bjarni var spurður út í um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið sagði hann mis­skiln­ings hafa gætt í umræðunni. „Það breyt­ist ekk­ert þar,“ sagði Bjarni og bætti við að það verði enn um­hverf­is­ráðuneyti með sinn ráðuneyt­is­stjóra. Ekki sé verið að leggja það niður eða sam­eina ráðuneytið öðru. Það eina sem ger­ist er að sami ráðherr­ann verður einnig yfir öðru ráðuneyti, þ.e. sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu.

Hann sagði að þetta hefði verið niðurstaða þeirra Sig­mund­ar Davíðs og ekki að van­hugsuðu máli. Skýr­ari póli­tíska for­ystu þurfi í mála­flokk­um vel­ferðarráðuneyt­is og at­vinnu­vegaráðuneyt­is. Ráðuneyt­in verði ekki brot­in upp, að svo komnu máli, en skerpa þurfi áhersl­urn­ar til að ná betri ár­angri. 

Fékk bréf frá Jemen og ESB

Þá voru þeir spurðir út í Evr­ópu­sam­bandið og aðild­ar­viðræðurn­ar. Nefndi Sig­mund­ur Davíð þá að hans hefðu beðið tvö bréf þegar hann tók við embætti for­sæt­is­ráðherra. Ann­ars veg­ar hafi verið um að ræða heilla­ósk­ir frá Jemen og hins veg­ar bréf frá fram­kvæmda­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins. Þar hafi hann lýst yfir vilja til að halda áfram góðu sam­bandi og sam­skipt­um við Ísland. „Við mun­um gera Evr­ópu­sam­band­inu grein fyr­ir breyttri stöðu og skila til þings­ins skýrslu um stöðuna í aðild­ar­viðræðunum og einnig um stöðuna inn­an ESB,“ sagði Sig­mund­ur.

Hann bætti við að þegar þingið hafi fengið þess­ar upp­lýs­ing­ar og tekið málið til umræðu geti menn metið fram­hald viðræðna.

Bjarni sagði rétt að taka eitt skref í einu. Fá þurfi fram viðbrögð Evr­ópu­sam­bands­ins við þess­um fregn­um, þ.e. að hlé sé gert á aðild­ar­viðræðunum. Hann benti á að Ísland sé ekki eitt í viðræðunum held­ur öll ríki ESB. 

Enn­frem­ur sagði Bjarni að þjóðar­at­kvæðagreiðsla sé góð til til að fá niður­stöðuna, fyrst þurfi að gera hlut­ina í réttri röð og hans upp­lif­un sé að þrýst­ing­ur hjá þjóðinni á að fá niður­stöðu í málið hafi minnkað mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert