Ný ríkisstjórn formlega tekin við

Nýja ríkisstjórnin með forseta Íslands.
Nýja ríkisstjórnin með forseta Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, stýrði í dag fundi ríkisráðs þar sem ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tók við og skipað var í embætti ráðherra.

Ekkert þeirra hefur setið áður í ríkisstjórn Íslands en Kristján Þór Júlíusson er elsti ráðherrann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sá yngsti.

Forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fæddur 12. mars 1975. BS-próf frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ 2005 auk hlutanáms í fjölmiðlafræði. Nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu. Framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla. Formaður Framsóknarflokks. Þingmaður í Reykjavík norður 2009-2013 og í NA-kjördæmi 2013.

Sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, fæddur 20. apríl 1962. Embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 1989 og á Íslandi 1990. Varaformaður Framsóknarflokksins. Þingmaður í Suðurkjördæmi frá 2009.

Utanríkisráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson, fæddur 9. júní 1968. Stúdentspróf FNV á Sauðárkróki 1989. Nám í atvinnulífsfélagsfræði HÍ. Þingmaður í Norðvesturkjördæmi frá 2009. Formaður þingflokks framsóknarmanna frá 2009.

Félagsmálaráðherra

Eygló Harðardóttir, fædd 12. desember 1972. Fil.kand.-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla 2000. Framhaldsnám í viðskiptafræði HÍ síðan 2007. Varaþingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi feb.-mars 2006. Þingmaður í Suðurkjördæmi 2008-2013. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi 2013.

Fjármála- og efnahagsráðherra

Bjarni Benediktsson, fæddur 26. janúar 1970. Lögfræðipróf HÍ 1995. Nám í þýsku og lögfræði í Þýskalandi 1995-1996. LL.M.-gráða frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum 1997. Hdl. 1998. Löggiltur verðbréfamiðlari 1998. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi frá 2003. Formaður Sjálfstæðisflokks.

Heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson, fæddur 15. júlí 1957. Skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1978. Nám í íslensku og almennum bókmenntum HÍ 1981-1984. Kennsluréttindapróf HÍ 1984. Bæjarstjóri Akureyrar 1998-2006. Þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi frá 2007.

Innanríkisráðherra

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fædd 12. október 1966. BA-próf í stjórnmálafræði HÍ 1991. MSc-próf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinburgh University 1993. Borgarstjóri í Reykjavík 2008-2010. Þingmaður Reykjavík suður 2013. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Mennta- og menningarmálaráðherra

Illugi Gunnarsson, fæddur 26. ágúst 1967. BS-próf í hagfræði HÍ 1995. MBA-próf frá London Business School 2000. Þingmaður Reykjavík suður 2007-2009 og Reykjavík norður frá 2009. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2009-2010 og frá 2012.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fædd 30. september 1967. BA-próf í stjórnmálafræði frá HÍ 1991. MS-próf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum. Þingmaður Suðvesturkjördæmis 2007-2009 og í Suðurkjördæmi frá 2009. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2010-2012.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert