Halldór gefur kost á sér

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 16. nóvember næstkomandi.

Fram kemur í tilkynningu frá Halldóri að hann hafi starfað að sveitarstjórnarmálum frá því að hann var kjörinn í bæjarstjórn Grindavíkur árið 1994. Hann hafi síðar starfað sem framkvæmdastjóri Fjórðungsambands Vestfirðinga í rúm tvö ár og sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og oddviti sjálfstæðismanna í 12 ár. Þá hafi hann gegnt formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga í 7 ár.

„Fyrir utan víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum hefur Halldór mikla reynslu úr einkageiranum, því hann starfaði við verkstjórn í fiskvinnslu, sjómennsku og rekstur eigin fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi. Halldór er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, viðskiptafræðingur með MBA og MS gráðu í mannauðsstjórnun,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Eiginkona Halldórs er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, sagnfræðingur og MA í hagnýtri menningarmiðlun og eiga þau tvo syni og eina dóttur. Fyrir á Halldór einn son.

Hagræðing í rekstri og þétting byggðar

Áherslur Halldórs eru meðal annars hagræðing í rekstri Reykjavíkurborgar svo skila megi fjármunum aftur til skattgreiðenda. Hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar verði ræktað, borgin eigi að vera alþjóðleg og halda stöðu sinni sem samgöngumiðstöð með innanlandsflugvöll. „Ekki hefur fundist annar staður fyrir flugvöllinn og því þarf að skapa festu og öryggi um núverandi staðsetningu.“

Þá segir í yfirlýsingu Halldórs að borgarbúar eiga rétt á því að þau mál sem þeir setji í forgang í kosningum sé fylgt eftir af ábyrgð og festu af kjörnum fulltrúum. Hann telji mikil tækifæri felast í auknu samráði við borgarbúa og kosningum um stór mál er varða forgangsröðun oftar en á fjögurra ára fresti.

Ennfremur leggur hann áherslu á þéttingu byggðar í skipulagsmálum og bættu borgarsamfélagi „þannig að fólk hafi raunverulegt val um búsetu og byggingu húsnæðis innan borgarmarkanna. Bætt umferðarmenning með lægri umferðarhraða í íbúðahverfum, bættri aðstöðu gangandi og hjólandi er liður í því, en jafnframt þarf að gæta þess að greið leið sé fyrir íbúa til að komast með eins skjótum hætti og mögulegt er milli hverfa borgarinnar.“

Þá megi ekki hræðast breytingar. Hugsa þurfi út fyrir hið hefðbundna „og hleypa að hugmyndum um einkarekstur í ákveðnum tilfellum. Slíkar breytingar færa okkur fram á við í þjónustu og meðferð fjármuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert