Börkur í framboð

Börkur Gunnarsson
Börkur Gunnarsson Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Börkur Gunnarsson, blaðamaður, rithöfundur og leikstjóri, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík þann 16. nóvember næstkomandi.

„Mikilvægast er að sjálfstæðismenn stilli upp góðum lista og komi sameinaðir til kosninga í vor. Á síðustu fjórum árum hefur stefnuleysi einkennt stjórn borgarinnar og pólitískir fulltrúar meirihlutans fært ábyrgðina í sífellt meira mæli á herðar embættismanna. En það er pólitíkusa að bera pólitíska ábyrgð ekki embættismanna.

Ég vil leggja áherslu á grunnþjónustuna, lága skatta og fjölskrúðuga borg með blómlegu menningarlífi. Það þarf ekki meiri steinsteypu í menningarlífið til að gera það öflugt, heldur hugmyndauðgi. Til að hafa áhrif innan borgarinnar vil ég að sjálfsögðu vera með besta flokknum í Reykjavík. Besti flokkurinn í Reykjavík er Sjálfstæðisflokkurinn,“ segir í tilkynningu.

Börkur Gunnarsson hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá 16 ára aldri og gegnt þar mörgum trúnaðarstörfum en hann var meðal annars í stjórn SUS og í framkvæmdastjórn SUS á sínum yngri árum. Auk þess að hafa verið í stúdentaráði fyrir Vöku um tveggja ára skeið. Þá stjórnaði hann vef sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum árið 2006 og var kosningastjóri sjálfstæðismanna í Reykjavík í síðustu kosningum. 

Hann bjó í tíu ár erlendis, sex ár í Tékklandi, tvö ár í Þýskalandi og í rúm tvö ár í löndum Mið-Austurlanda.

Hann hefur gefið út fjórar bækur en fimmta bókin hans kemur út núna í nóvember hjá Almenna bókafélaginu og nefnist hún Hann.

Tvö leikverka hans voru sýnd hjá Stúdentaleikhúsinu og hann hefur verið með nokkur sjónvarpsverk hjá RÚV og tékkneska ríkissjónvarpinu auk þess að hafa skrifað handritið að og leikstýrt tveimur bíómyndum. Bíómyndin hans Sterkt kaffi fékk Menningarverðlaun DV sem besta íslenska bíómynd þess árs. Síðasta bíómyndin hans Þetta reddast með Birni Thors í aðalhlutverki var frumsýnd síðastliðið vor.

Börkur hefur komið víða við í blaðamennskunni og unnið hjá Visi.is, Fróða, DV-Fókus, Pressunni, Rás 2 og fleirum en síðustu þrjú ár hefur hann verið blaðamaður á Morgunblaðinu,segir enn fremur í tilkynningu.

Hann hefur keppt í þrjú ár í röð fyrir hönd Reykjavíkur í spurningaþættinum Útsvar hjá RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert