Halldór Halldórsson mun leiða lista sjálfstæðismanna í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum. Júlíus Vífill Ingvarsson, sem einnig sóttist eftir að leiða listann, hafnaði í öðru sæti. Kjartan Magnússon er í þriðja sæti og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir í því fjórða.
Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík liggja nú fyrir. 5.075 atkvæði voru greidd. 102 seðlar voru auðir eða ógildir.
Áslaug María Friðriksdóttir er í fimmta sæti listans, Hildur Sverrisdóttir í sjötta, Marta Guðjónsdóttir í sjöunda og Börkur Gunnarsson í því áttunda.
Björn Gíslason hafnaði í níunda sæti og Lára Óskarsdóttir í því tíunda. Kjörnefnd á nú eftir að fara yfir úrslit prófkjörsins og ákveða endanlegan lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.
Halldór hlaut 1.802 atkvæði í fyrsta sætið. Hann er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og var áður bæjarstjóri á Ísafirði.
„Auðmýkt og virðing, það er það sem er mér efst í huga núna,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is er úrslitin voru ljós. „Auðmýkt og virðing gagnvart verkefninu framundan, gagnvart mínum meðframbjóðendum, gagnvart kjósendum í Reykjavík. Kjósendum sem ég hef lofað að leggja mig allan fram við að vinna fyrir af krafti.“
Spurður um hvernig honum lítist á listann eftir prófkjörið segir Halldór að hópurinn sé öflugur og góður.
Hann segir að mjög fljótlega muni hann hitta hópinn og fara vel yfir stöðuna. „Við munum nýta veturinn vel til að vinna kosningarnar.“
Tuttugu frambjóðendur gáfu kost á sér í prófkjörinu. Fjórir gáfu kost á sér í oddvitasætið þau Halldór Halldórsson, Hildur Sverrisdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Atkvæðin í prófkjörinu skiptast þannig:
1. Halldór Halldórsson: 1.802 atkvæði í fyrsta sæti
2. Júlíus Vífill Ingvarsson: 2.031 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Kjartan Magnússon: 2.531 atkvæði í 1.-3. sæti
4. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir: 1.981 atkvæði í 1.-4. sæti
5. Áslaug María Friðriksdóttir: 2.404 atkvæði í 1.-5. sæti
6. Hildur Sverrisdóttir:2.212 atkvæði í 1.-6. sæti
7. Marta Guðjónsdóttir: 2.104 1.-7. sæti
8. Börkur Gunnarsson: 1.511 atkvæði
9. Björn Gíslason: 1.422 atkvæði
10. Lára Óskarsdóttir: 1.325 atkvæði