Niðurstaða prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík er ekki bindandi vegna dræmrar kosningaþátttöku. Kjörsóknin í prófkjörinu í gær var um 25%, en þyrfti hins vegar að vera 50% til þess að geta talist bindandi. Alls eru 20.695 manns á kjörskrá og greiddu 5.075 manns atkvæði. Er þátttakan um fjórðungi minni en í síðasta prófkjöri flokksins í borginni.
„Það hefur ekki komið til tals hvort það komi til greina að breyta listanum, enda er stutt síðan prófkjörinu lauk,“ segir Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Hann segir mörg verkefni bíða kjörnefndar. „Kjörnefnd þarf að taka afstöðu til niðurstöðu prófkjörsins og hvernig listinn eigi að líta út í sjö efstu sætunum auk þess að fylla þrjátíu manna lista,“ segir Óttarr.
Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hefur sagt að listinn endurspegli ekki fjölbreytnina innan flokksins þar sem engar konur skipi efstu þrjú sæti listans. Óttar segist vissulega hafa heyrt þessa skoðun viðraða en segir það vera kjörnefndar að taka afstöðu til málsins. „Það eru fjórar konur í sjö efstu sætunum og þrír karlar, þannig þetta er líka spurning um hvernig litið er á hlutina,“ segir hann.
Þá segir hann að kjörstjórn hafi ekki neinn tímaramma að vinna eftir og ekki er því ljóst hvenær lokaniðurstaða verður ljós.