Halldór Halldórsson, sigurvegari í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir næstu skref að klára uppsetningu listans fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hann vill síður hreyfa við flugvellinum enda séu allar helstu stofnanir landsins á höfuðborgarsvæðinu og þurfi borgin að vera tengd samgöngukerfi landsins.
Halldór segist ekki eiga von á að kjörnefnd breyti röðun á listanum og jafni kynjahlutföllin, en nokkurrar óánægju gætir vegna þess að karlar skipa efstu þrjú sætin. „Mín afstaða er sú að kynjahlutföllin eigi að vera sem jöfnust,“ sagði hann í samtali við mbl.is í kvöld.
Halldór segir að nú sé nóg framundan. „Ég er spenntur að byrja að vinna málefnavinnuna,“ segir hann og leggur áherslu á skipulagsmálin, málin sem snerta flugvöllinn ásamt rekstri og fjármálum borgarinnar. „Það er ótrúlega margt sem kallar á,“ segir Halldór.