Ekki liggur fyrir með hvaða hætti verður valið á framboðslista stjórnmálaflokkanna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor ef undan eru skilin Sjálfstæðisflokkurinn, sem hélt prófkjör sitt um helgina, og Björt framtíð sem hyggst skipa sérstaka nefnd sem sjái um að stilla um lista.
Samfylkingarmenn í Reykjavík funda væntanlega eftir helgi þar sem tekin verður ákvörðun um fyrirkomulag við val á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, framkvæmdastjóra flokksins, í samtali við mbl.is. Eina félagið sem hafi þegar tekið ákvörðun í þeim efnum sé Samfylkingarfélagið í Kópavogi sem ætli að stilla upp lista.
Þórunn segir að málið sé annars í umræðuferli hjá öðrum félögum innan Samfylkingarinnar en ákvörðun um það hvaða aðferð verði notuð við val á framboðslista liggi væntanlega fyrir í flestum tilfellum fyrir jól. Valið sem slíkt fari þá fram eftir áramótin. Fjórar leiðir standa til boða við val á framboðslista; flokksval fyrir flokksmenn, flokksval fyrir flokksmenn og skráða stuðningsmenn, kjörfundur og uppstilling.
Hliðstæða sögu er að segja af Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Ekki liggur fyrir hvert fyrirkomulagið verði í Reykjavík hjá flokknum að sögn Auðar Lilju Erlingsdóttur, framkvæmdastjóra flokksins, en einn fundur hefur verið haldinn í þeim efnum og má búast við ákvörðun í næstu viku. Eina félagið sem ákveðið hefur hvaða fyrirkomulag verði notað er VG í Borgarbyggð sem ætlar að stilla upp framboðslista. Tvær meginleiðir eru í boði, forval eða uppstilling. Vilji félög fara aðrar leiðir er hægt að óska sérstaklega eftir því.
Kjörstjórn hefur verið kosin hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík sem hefur það verkefni að stilla upp lista í Reykjavík að sögn Hrólfs Ölvissonar, framkvæmdastjóra flokksins. Önnur félög hafa heldur ekki afgreitt þau mál. Hrólfur segir málin í farveg og segist búast við að ákvörðun liggi fyrir í þeim efnum í flestum tilfellum fyrir næstu mánaðarmót en önnur eftir áramótin.