„Ég er ekki búin að taka ákvörðun,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is spurð hvort hún ætli að taka fjórða sætinu á framboðslista flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor en hún hafnaði í því sæti í prófkjörinu sem fram fór um helgina. Hún segist aðspurð vera að hugsa málið og að ákvörðun muni ekki liggja fyrir í dag.
Þorbjörg sóttist eftir fyrsta sætinu á listanum ásamt Halldóri Halldórssyni, Júlíusi Vífli Ingvarssyni og Hildi Sverrisdóttur. Hún hlaut sem fyrr segir fjórða sætið sem er sama sæti og hún var í fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar 2009.
Halldór fékk flest atkvæði í fyrsta sætið og Júlíus hlaut annað sætið. Júlíus hefur þegar lýst því yfir að hann ætli að taka það sæti eins og mbl.is greindi frá í gær. Hildur hlaut hins vegar 6. sætið en hún var í 9. sæti fyrir síðustu kosningar.