Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að taka sæti á lista sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum í vor. Hún hafnaði í fjórða sæti í prófkjörinu en stefndi á oddvitasætið.
Yfirlýsing frá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa:
„Ég hef ákveðið að taka ekki sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor.
Ég hef starfað af miklum metnaði sem borgarfulltrúi í nærri 8 ár og sem varamaður í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna fjögur ár þar á undan. Í prófkjörinu sl. laugardag sóttist ég eftir 1. sæti á listanum. Fyrir utan að benda á augljósa þörf á að taka fjármál borgarinnar föstum tökum lagði ég megináherslu á nauðsyn þess að hlúa betur að skólunum okkar. Niðurstaða prófkjörsins var sú að ég hafnaði í fjórða sæti. Ég hlýt að túlka það svo að áherslur mínar hafi ekki átt upp á pallborðið hjá kjósendum í prófkjörinu. Í því ljósi finnst mér eðlilegt að stíga til hliðar.
Á undanförnum árum hefur oft blásið hressilega um Sjálfstæðisflokkinn og afar dræm þátttaka í prófkjörinu núna sýnir að honum hefur ekki tekist að endurheimta að fullu það traust sem flokksmenn - og borgarbúar - báru til hans. Á því ber ég að sjálfsögðu mína ábyrgð. Flokknum er nauðsyn að fylkja borgarbúum að baki sér til góðra verka. Ég vona sérstaklega að hann beri gæfu til að ná til ungs fólks og kvenna, eins og ég lagði mikla áherslu á í baráttu minni fyrir að leiða listann.
Með nýju fólki koma nýjar áherslur og ég óska nýjum lista Sjálfstæðisflokksins góðs gengis í vor. Ég mun starfa áfram sem borgarfulltrúi fram á vorið og sinna málefnum Reykvíkinga af kostgæfni, hér eftir sem hingað til.“