Flestir nefndu Dag B. Eggertsson þegar kom að vali á næsta borgarstjóra, eða 33,1%, 11,7% nefndu Halldór Halldórsson og 10,9% Júlíus Vífil Ingvarsson. Úrtakið í könnuninni var 2.600 manns og svarhlutfall 59%.
Þetta er meðal niðurstaðna skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var dagana 6. til 18. nóvember sl. fyrir Morgunblaðið. Björt framtíð fengi fimm menn kjörna í borgarstjórn, Samfylkingin þrjá, Vinstri græn einn, Píratar einn og Sjálfstæðisflokkur fimm.
S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra, fékk 6,9% atkvæða þegar kom að vali á borgarstjóra, Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, fékk 5,7%, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Sjálfstæðisflokki, 5,6% og Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, 5,4%.
Aðrir fengu minna en athygli vekur að 10% svarenda vildu sjá „annan einstakling“ í stól borgarstjóra en þá sem spurt var út í í könnuninni.
Sé afstaða til borgarstjóra skoðuð eftir því hvað fólk kaus í síðustu borgarstjórnarkosningum þá vilja 65% samfylkingarfólks fá Dag B. Eggertsson, 8% kjósenda flokksins nefndu S. Björn Blöndal og 7% nefndu Björk Vilhelmsdóttur.
Af kjósendum Besta flokksins í síðustu kosningum til borgarstjórnar vildu 29% fá Dag, 14% S. Björn Blöndal og 11% Einar Örn. Framsóknarmenn eru hrifnastir af Degi, eða 34% kjósenda flokksins 2010, 25% vildu Júlíus Vífil og 10% Halldór.
Dagur er með svipaðan stuðning meðal fylgismanna VG, eða 33%, 18% vildu Sóleyju og 7% Björk Vilhelmsdóttur.
Hjá Sjálfstæðisflokknum naut Halldór 35% fylgis kjósenda flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, 30% vildu sjá Júlíus Vífil í stóli borgarstjóra, 14% nefndu Þorbjörgu Helgu og 9% vildu fá Dag B.
Sé litið til afstöðu svarenda eftir kyni þá vildu 38% kvenna fá Dag sem borgarstjóra en 28% karla, 15% karla vildu fá Halldór en 8% kvenna, en 10% karla nefndu Júlíus Vífil og 12% kvenna. Júlíus nýtur meiri stuðnings eldri kjósenda en Halldór og Sóley sækir mest fylgi til þeirra yngstu.