Björt framtíð fengi 29,4% atkvæða, Sjálfstæðisflokkurinn 26,6% og Samfylkingin 17,6% ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga nú. Allir flokkar í borgarstjórn tapa fylgi frá síðustu kosningum nema Vinstri græn. Þá næðu Píratar inn manni og eru nálægt því að fella fimmta mann Sjálfstæðisflokksins.
Þetta er meðal niðurstaðna skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var dagana 6. til 18. nóvember sl. fyrir Morgunblaðið. Björt framtíð fengi fimm menn kjörna í borgarstjórn, Samfylkingin þrjá, Vinstri græn einn, Píratar einn og Sjálfstæðisflokkur fimm sem áður segir.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar nokkuð í fylgi, miðað við síðustu kosningar, eða um sjö prósentustig. Í kosningunum 2010 fékk hann 33,6% atkvæða og fimm borgarfulltrúa, en heldur þeim fjölda nú engu að síður. Í kosningunum 2006 fékk Sjálfstæðisflokkur sjö fulltrúa í borgarstjórn.
Píratar kæmu nýir inn í borgarstjórn, fengju einn mann kjörinn, en þeir buðu ekki fram lista í síðustu borgarstjórnarkosningum. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsvísindastofnun yrði annar maður á lista Pírata næstur inn í stað fimmta manns sjálfstæðismanna.
Ef afstaða svarenda er skoðuð eftir því hvað þeir kusu síðast kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós, hvort sem það eru síðustu þingkosningar eða borgarstjórnarkosningar. Virðist sem nokkur hreyfing sé á fylginu milli flokka, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum þar sem flokkshollustan virðist vera mest.
Af þeim sem kusu Bjarta framtíð í síðustu þingkosningum ætla 89% að kjósa flokkinn til borgarstjórnar í vor, en rétt rúmur helmingur þeirra sem kusu Besta flokkinn 2010 ætlar að kjósa Bjarta framtíð nú. Athygli vekur að 18% stuðningsmanna Besta flokksins 2010 myndu kjósa Pírata nú, 9% Sjálfstæðisflokkinn og 8% Samfylkinguna.
Af þeim sem kusu Framsókn til þings í vor ætla 50% að kjósa flokkinn í borgarstjórn, 37% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 13% Bjarta framtíð. Miðað við síðustu borgarstjórnarkosningar ætla 49% framsóknarmanna þá að kjósa flokkinn aftur, 13% myndu kjósa Framsóknarflokkinn, 7% Bjarta framtíð en 26% aðra flokka en eru í borgarstjórn í dag.