Eftirspurn eftir ungum skeleggum konum

Eva Baldursdóttir, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar
Eva Baldursdóttir, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar

„Ég er bara að íhuga málið. Staðan er sú að það er kannski köllun eftir ungum skeleggum konum í pólitík, ekki síst eftir brotthvarf Oddnýjar. Fólk hefur verið að koma að máli við mig en aðalmálið er samt að flokkurinn bæti við sig borgarfulltrúa. Og ef ég get orðið að einhverju liði í því þá er ég til.“

Þetta segir Eva Baldursdóttir, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, spurð hvort hún hafi hug á því að gefa áfram kost á sér í borgarmálunum fyrir flokkinn. Hún segir ljóst að þörf sé á endurnýjun og sérstaklega hvað varðar ungar konur. „Ég hef starfað í borgarmálunum undanfarin tæp fjögur ár og verið fulltrúi í ÍTR og menningar- og ferðamálaráði og kann vel við mig í því. En málið snýst aðallega um það að geta orðið að einhverju liði.“

Missir að Oddnýju og Þorbjörgu Helgu

Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að missir sé að Oddnýju Sturludóttur, borgarfulltrúa flokksins, úr borgarmálunum en hún tilkynnti í gær að hún ætlaði að hætta þátttöku í þeim. Hún sé mjög flott ung stjórnmálakona og því leiðinlegt að sjá á bak henni. Það sama eigi við um Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en hún ætlar ekki að taka sæti á lista flokksins í kjölfar prófkjörs hans á dögunum. Hún stefndi á fyrsta sæti en hlaut það fjórða.

„Það er leiðinlegt að þarna séu tvær framúrskarandi manneskjur að hætta. Mér finnst það áhyggjuefni ef konur af þessu kalíberi finna sig ekki í þessum heimi. Mér finnst það bara mjög slæmt,“ segir hann ennfremur.

mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert