„Það er greinilegt að fylgi flokkanna er á mikilli hreyfingu, þessi hefðbundnu flokkar fá allir minna í þessari könnun en þeir fengu í síðustu kosningum,“ segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, aðspurður um niðurstöður nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið.
Vísar Eyþór í fylgi Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins í Árborg, en flokkarnir tapa allir fylgi frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Árborgar myndi falla ef gengið yrði til sveitastjórnarkosninga á morgun. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 33,3% atkvæða og fjóra menn kjörna, en flokkurinn fékk 50,1% í kosningunum 2010 og fimm bæjarfulltrúa af níu.
„Sérstaka athygli vekur mikið fylgi Bjartrar framtíðar, en flokkurinn hefur ekki gefið upp að hann muni bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor, sem og fylgi Pírata og Vinstri grænna,“ segir Eyþór.
Hann segir niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að mikil hreyfing sé á fylgi flokkanna. „Þetta ætti að hvetja Bjarta framtíð og Pírata til þess að taka þátt.“
„Það er hollt að enginn gangi að neinu vísu í pólitík,“ segir Eyþór, aðspurður um hvort niðurstöður könnunarinnar séu áhyggjuefni. „Þetta vekur fólk til umhugsunar um hvað íbúar vilja á endanum. Við sáum einnig miklar sveiflur í skoðanakönnunum fyrir síðustu kosningar. Þetta er leið til að halda okkur öllum á tánum.“
Frétt mbl.is: Meirihluti í Árborg myndi falla.