Björt framtíð fær fylgi Besta flokksins

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björt framtíð mælist með nær sama fylgi og Besti flokkurinn fékk í síðustu borgarstjórnarkosningum. Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki verið meira í tvö ár og fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið minna á kjörtímabilinu. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup og kvöldfréttum RÚV í gær.

Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups eykst fylgi Samfylkingarinnar í Reykjavík um sex prósentustig í. Flokkurinn mælist nú með tæpt 21 prósent en var með 15 prósenta fylgi í síðustu könnun.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar í þessari nýju könnun. Hann mælist með 29 prósent, var með 31 prósent fyrir mánuði og fékk 34 prósent í kosningunum árið 2010.

Vinstri grænir mælast með 9 prósent, svipað og síðast en heldur meira en í kosningunum.

Framsóknarflokkurinn mælist með fjögurra prósenta fylgi og er áfram langt frá því að ná manni inn í borgarstjórn.

Könnun Gallups er gerð eftir að Jón Gnarr tilkynnti að hann yrði ekki í framboði og að Besti flokkurinn rynni inn í Bjarta framtíð sem býður í hans stað fram í vor. Könnunin var hins vegar gerð áður en prófkjör Sjálfstæðisflokksins fór fram.

Niðurstöðurnar sýna að fylgi Bjartrar framtíðar er aðeins minna en Besta flokksins. Besti flokkurinn fékk 35 prósent atkvæða í kosningum, mældist með 37 prósent í síðustu könnun, en Björt framtíð mælist nú með 34 prósent. Þetta þýðir að arftaki Besta flokksins fengi sex borgarfulltrúa eins og Besti flokkurinn fékk síðast, Sjálfstæðisflokkurinn fengi áfram fimm menn, Samfylkingin þrjá og Vinstri græn einn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert