Félagsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík sem fram fór í gærkvöld samþykkti að haldinn yrði valfundur í febrúar næstkomandi þar sem efstu menn á framboðslista VG vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor verða valdir.
VG hefur í dag einn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, oddvita flokksins í borginni Sóley Tómasdóttur.
Á félagsfundi VG í Reykjavík í gærkvöldi var tillaga stjórnar VGR um að standa að valfundi, sértökum félagsfundi í febrúar, til þess að velja fimm efstu frambjóðendur á lista samþykkt, segir í tilkynningu frá félaginu.
Þetta er í fyrsta skipti sem staðið verður að vali í efstu sæti á listum VG með þessum hætti en frá árinu 2006 hefur farið fram forval til að velja efstu frambjóðendur í Reykjavík.
Að loknum samþykktum ræddi Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og þær breytingartillögur sem VG stendur að við hana. Sóley leggur fram nokkrar breytingartillögur við fjárhagsáætlunina m.a. að fjölga verði íbúðum hjá félagsbústöðum, hækka fjárhagsaðstoð og að fólk í atvinnuleit og á fjárhagsaðstoð fái frí sund- og bókasafnskort.