Hjálmar Sveinsson gefur kost á sér í 2. til 3. sætið í væntanlegu flokksvali Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna í vor.
„Ég hef verið 1. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í borgarstjórn á þessu kjörtímabili, varaformaður Umhverfis- og skipulagsráðs og stjórnarformaður Faxaflóahafna sf. Þar áður starfaði ég í fjölda ára sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, þar sem ég var meðal annars umsjónarmaður útvarpsþáttanna Spegilsins og Krossgatna. Ég hef starfað við bókaútgáfu og verið leiðsögumaður á hálendi Íslands í mörg sumur. Ég er með magistergráðu í heimspeki og bókmenntum frá Freie Universität í Berlín.
Í borginni hef ég einkum lagt áherslu á umhverfismál og skipulagsmál. Í dag býr meirihluti mannkyns í borgum og bæjum. Nákvæmlega þess vegna snýst ein mikilvægasta lífskjarabarátta okkar tíma um borgarumhverfið; að það sé hagkvæmt fyrir íbúana, heilsusamlegt, öruggt, skjólsælt, aðlaðandi, fjölbreytt og að það hjálpi til við að skapa meiri jöfnuð í samfélaginu. Þetta er einmitt rauði þráðurinn í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík sem ég hef tekið þátt í að móta undanfarin ár. Yfirskrift skipulagsins segir sína sögu, „Borg fyrir fólk“. Ég er sannfærður um að aðalskipulagið markar tímamót. Ég hef mikinn áhuga á að fylgja markmiðum skipulagsins eftir næstu árin.
Á vettvangi Faxaflóahafna hef ég talið brýnt að fyrirtækið mótaði sér metnaðarfulla umhverfisstefnu. Sú stefna hefur, að mínu mati, þegar sannað sig. Ég beitti mér líka fyrir því að nú er haldið árlega svokallað notendaþing þar sem hinir fjölmörgu og ólíku notendur hafnarsvæðanna bera saman bækur sínar og koma óskum sínum og athugasemdum á framfæri við Faxaflóahafnir. Það hefur reynst vel. Við gömlu höfnina í Reykjavík hefur myndast einstætt sambýli sjávarútvegs, ferðaþjónustu og menningarstarsemi. Fyrir vikið er gamla hafnarsvæðið, sem var áður aflokað atvinnusvæði, heitasti staður borgarinnar,“ segir í tilkynningu frá Hjálmari.