Lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands segir að pólitískar hræringar hafi haft áhrif á stefnumótun í menntakerfinu í gegnum tíðina. Dæmi um það séu áhrif nýfrjálshyggju um síðustu aldamót, sem birtust í Aðalnámskrá 1999 og áhrif endurreisnarstefnunnar sem gæti í nýjustu námskránni.
Aðalnámskrá grunnskóla er sett af mennta- og menningarmálaráðherra og er rammi utan um skólastarf grunnskólanna. Hún kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs, útfærir þá menntastefnu sem kveðið er á um í lögum og er helsta stjórntæki fræðsluyfirvalda til að tryggja samræmi og samhæfingu skólastarfs, eins og segir í núverandi aðalnámskrá sem kom út á árunum 2011 – 2013.
Meyvant Þórólfsson, lektor við Menntavísindasvið HÍ, hefur m.a. rannsakað stefnumótun í menntakerfinu og námskrárfræði. Hann segir töluverð átök hafa verið um menntastefnu hérlendis á 8. áratug síðustu aldar og í byrjun þess níunda.
„Þessi átök, sem stundum hafa verið kenndi við „sögukennsluskammdegið“, voru um margt athyglisverð og mikilsverður lærdómur fyrir okkur sem höfum fjallað um menntamál fram á þennan dag,“ segir Meyvant. „Tekist var á um það í skólum, fjölmiðlum, á Alþingi og um allt samfélagið hvort íslensk börn ættu að læra um Snorra Sturluson og sögu Íslands eða samfélög bavíana í Afríku og lífshætti framandi þjóða.“
Meyvant segir að í gegnum tíðina hafi stefnur risið og hnigið í menntamálaumræðu allt eftir því frá hvaða sjónarhorni menntunin hafi verið rannsökuð. „Trú okkar og jafnvel trúboð tengt slíkum sjónarmiðum kennismiða hefur ósjaldan leitt okkur í ógöngur. Við förum að fylgja kenningum eins og um tískustrauma sé að ræða, af því að nógu margir aðrir gera það.“
Í dag og næstu fjóra daga verður fjallað ítarlega um málefni grunnskólanna í Morgunblaðinu og á mbl.is. Næstu vikur og mánuði, fram að sveitarstjórnarkosningunum 31. maí, verður fjallað um helstu verkefni sveitarfélagana, en grunnskólarnir eru stærsta einstaka verkefnið.